Í uppgjöri finnska farsímarisans Nokia sem birt var í gær kemur fram að hagnaður fjórða ársfjórðungs 2005 er lægri en sama tímabil árið 2004. Einnig var tilkynnt um fyrirætlanir fyrirtækisins um kaup á eigin hlutafé að andvirði 6,5 milljarðar evra.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að hagnaður Nokia á árinu í heild jókst þó umtalsvert, enda niðurstöður fyrri hluta ársins jákvæðar. Þrátt fyrir að hagnaður á fjórða ársfjórðungi hafi lækkað, hækkaði hagnaður á hlut lítillega þar sem fyrirtækið keypti eigin hlutafé á tímabilinu.

Talsmenn fyrirtækisins skýra niðurstöðurnar með lækkandi verðlagi á farsímamarkaði. Stafar það einkum af aukinni útrás í Kína og Indlandi, þar sem kaupmáttur er lægri. Til að sporna við þessari þróun hefur fyrirtækið reynt að selja þróaðari og dýrari eintök á vestrænum mörkuðum. Markaðshlutdeild Nokia jókst þó um 1,5% og nemur hún 32,6%. Fyrirtækið er langstærsti farsímaframleiðandi heims, en næst í röðinni kemur Motorola með 18,8% hlutdeild. Hlutabréf í Nokia féllu um 2% í gær, en þau höfðu risið um 38% síðastliðið ár.