Margvíslegar breytingar eru fram undan á íslenska hlutabréfamarkaðnum í kjölfar sameiningar Kauphallarinnar við OMX, að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar. Eins og kunnugt er komust Kauphallirnar að niðurstöðu um fyrirhugaða sameiningu fyrr í vikunni. Áætlað er að formlega verði gengið frá samningum í lok október og að Kauphöllin gangi inn í OMX samstæðuna strax um áramót. Íslensku félögin sem skráð eru í Kauphöllina munu þá komast á samnorrænan lista OMX.

Ljóst er að öll umgjörð og umhverfi íslenska hlutabréfamarkaðarins mun taka töluverðum breytingum í kjölfar sameiningarinnar. Innan OMX samstæðunnar eru 677 félög skráð en OMX heldur utan um kauphallarstarfsemi í Stokkhólmi, Helsinki Kaupmannahöfn og í Eystrasaltslöndunum. Makaðsvirði skráðra félaga innan OMX er rúmlega 70 þúsund milljarðar króna. Auk breytinga á ytra umhverfi mun vöruframboð Kauphallarinnar taka breytingum en áætlað er að afleiðumarkaður með afleiður á skráð bréf í Kauphöllinni verði settur á laggirnar strax á næsta ári. Afleiðumarkaðurinn verður starfæktur á svipaðan hátt og aðrir afleiðumarkaðir innan OMX. Viðskipti með afleiður þar sem framvirkir samningar með uppgjörsákvæði sem byggja á þróun gengi bréfa í tilteknu hlutafélagi er nýjung hér á landi sem mun gefa markaðsaðilum ný tækifæri í fjárfestingum sínum. "Með skipulögðum hætti munu fjárfestar geta veðjað á að markaðurinn lækki fremur en hækki. Ég held því fram að afleiðumarkaður muni gera mikið fyrir verðjöfnun á markaðnum og jafnvel stuðla að því að þær miklu verðsveiflur sem við höfðum séð á markaðnum jafnist út," segir Þórður og bætir við að fyrir fullþroska hlutabréfamarkað sé afleiðumarkaðurinn nauðsynlegur þáttur.

Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, er sameining kauphallanna eðlileg þróun á þeim mikla vexti sem Kauphöll Íslands hefur gengið í gegnum undanfarin ár. "Velta hlutabréfa í Kauphöllinni hefur 25 faldast undanfarin fimm ár sem á sér varla hliðstæðu," segir hann. Að sögn Þórðar má búast við auknum seljanleika íslenskra hlutabréfa í kjölfar skráningar á nýjan samnorrænan lista sem alls 700 félög innan OMX samstæðunnar verða aðilar að.

Sameiningin kemur í kjölfar þess að gengið hefur verið frá samningum um að Kauphöllin OMX kaupir eingarhaldsfélagið Verðbréfaþing sem á Kauphöll Íslands. Kaupverðið er rétt rúmlega 3 milljarðar króna. Alls munu hluthafar Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings hf. (EV) fá 2,07 milljónir hluta í OMX í skiptum fyrir hlut sinn í EV fyrir 2.450 milljónir króna. Að auki munu hluthafar fá greitt handbært fé og verðbréf í eigu EV að verðmæti 570 milljónir króna.