Rekstrartekjur Landsvirkjunar á síðasta ári námu tæplega 300 milljónum dollara árið 2009 samanborið við 425 milljónir dollara árið 2008. Skýrist munurinn milli ára, sem nemur tæplega 20 milljörðum króna, öðru fremur af verðlækkunum á áli. Þá hafði gengisfall krónunnar einnig þau áhrif að tekjur af raforkusölu til heimila var umtalsvert minni í dollurum talið, en Landsvirkjun gerir upp í dollurum. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, upplýsti um það á ársfundi fyrirtækisins, 16. apríl sl., að stóriðjan á Íslandi hefði greitt 19 dollara fyrir hverja megavattstund af raforku árið 2009 samanborið við ríflega 30 dollara á megavattstund árið 2008. Viðskiptablaðið hafði raunar greint frá verðinu sem fyrirtækið fékk fyrir raforkuna árið 2008. Var það fundið út með skoðun á ársreikningum fyrirtækisins og síðan gögnum um raforkumarkaðinn á Íslandi frá Orkustofnun, þar sem fá mátti fram hversu miklar tekjur komu vegna sölu til stóriðju á hvert megavatt.

Afleiður mikilvægar Til þess að mæta sveiflum á verði áls stundar Landsvirkjun umsvifamikil afleiðuviðskipti, sem er helsti og veigamesti hluti áhættustýringar fyrirtækisins. Tekjusveiflunni milli 2008 og 2009 var til að mynda mætt með áhættuvörnum, sem eru afleiður. Innleystar áhættuvarnir námu 42,5 milljónum dollara á árinu 2009. Árið áður voru gjaldfærðar slíkar varnir upp á 54,8 milljónir dollara. Lækkun tekna milli ára nemur því 54,9 milljónum dollara, en ekki ríflega 125 milljónir dollara eins og munur á tekjum gefur tilefni til þess að ætla. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar var metið 32,6% í lok árs 2009 og arðsemi eigin fjár um 14%. Á ársfundi fyrirtækisins, sem fram fór 16. apríl sl., sagði Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, að í alþjóðlegum samanburði væri eigin fé Landsvirkjunar í lægri kantinum en algengt væri að eigið fé orkufyrirtækja væri um 40 til 50%. Lausafjárstaða fyrirtækisins er traust en ekki er þó svigrúm fyrir nýframkvæmdir að svo stöddu nema að aðgengi að lánsfjármagni á alþjóðamörkuðum batni. Þar skiptir hagstætt lánhæfismat frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum miklu máli og þá einkum að halda einkunn í fjárfestingarflokki. Það eykur líkur á að fyrirtækinu standi til boða fjármagn á hagstæðum kjörum. Eins og staða mála er nú hefur Landsvirkjun laust fé fram til loka árs 2012.