Hægt verður að eiga viðskipti með afleiður í Kauphöllinni næsta mánudag, 14. maí. Til að byrja með verður það staðlaðir framtíðarsamningar og valréttir með hlutabréf Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, framtíðarsamninga á OMXI15 úrvalsvísitöluna og framvirka samninga á vísitölu neysluverðs. Þá verður hægt að eiga viðskipti með sérsniðnar afleiður á íslensk hlutabréf og úrvalsvísitöluna. Ennfremur verður settur á stofn lánamarkaður með hlutabréf félaga í OMXI15 en það auðveldar skortsölu á slíkum bréfum, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Breytingar þessar eru jákvætt skref í þróun íslenskra fjármálamarkaða. Afleiðuviðskipti hafa aukist geysihratt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarin ár. Hér á landi hefur um nokkurt skeið verið unnt að eiga viðskipti með sérsniðnar afleiður af ýmsu tagi, og hefur það aukið dýpt og skilvirkni markaða, en ekki hefur verið markaður fyrir staðlaðar afleiður til þessa.

Verður fróðlegt að fylgjast með verðmyndun á hinum nýju stöðluðu afurðum, ekki síst verðbólguafleiðunum, en þróun verðlags hefur óvenju mikið vægi á íslenskum fjármálamörkuðum vegna útbreiddrar verðtryggingar skuldabréfa og því líklegt að margir vilji ýmist nota slíkar afleiður til varna eða spákaupmennsku,? segir greiningardeildin.