Um 15% alls þess afla sem landað var í EFTA- og ESB ríkjunum árið 2008 var landað á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Evrópusambandsins yfir landaðan fiskafla í ESB ríkjunum 27 auk EFTA-ríkjanna Íslands og Noregs.

Alls nam heildarafli umræddra ríkja um 8,2 milljónum tonna árið 2008. Langmestum afla var landað í Noregi, rúmlega 2,2 milljónum tonna. Ísland kom næst með 1,25 milljónir tonna þetta sama ár.

Af einstökum Evrópusambandsríkjum var mestum afla landað í Danmörku eða tæpum 985 þúsund tonnum. Á Spáni komu 891 þúsund tonn á land og um 575 þúsundum tonna var landað í Hollandi. Önnur helstu lönd á listanum  eru Bretland með 464 þús. tonn, Frakkland með 286 þús. tonn, Ítalía með 227 þús. tonn, Svíþjóð með 227 þús. tonn og Þýskaland með 225 þús. tonn.

Þetta kemur fram á vef LÍÚ og vísað í samantektina sem lesa má HÉR.