Afli íslenska fiskiskipaflotans var 1,6% minni á föstu verðlagi í ágúst síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra. Það sem af er árinu hefur aflinn hins vegar aukist um 15,8% miðað við sama tímabil í fyrra á föstu verði, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Aflinn nam alls 100.401 tonni í ágúst en var 109.814 tonn í ágúst í fyrra.

Botnfiskafli dróst saman um tæp 2.600 tonn frá ágúst 2011 og nam hann 21.400 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 9.700 tonn, sem er 115 tonnum meiri afli en í fyrra.

Þá nam afli uppsjávartegunda tæpum 76.600 tonnum í ágúst síðastliðnum samanborið við 83.300 tonn á sama tíma í fyrra.

Hagstofan