Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum septembermánuði, metinn á föstu verði, var 6,8% meiri en í september 2005, segir Hagstofa Íslands.

Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 6,3% miðað við sama tímabil 2005, sé hann metinn á föstu verði. Aflinn nam alls 86.573 tonnum í september 2006 samanborið við 64.979 tonn í september í fyrra.

Botnfiskafli var 35.100 tonn samanborið við 34.300 tonn í septembermánuði 2005 og jókst um rúm 800 tonn. Þorskafli dróst saman í september 2006 um rúm 400 tonn, ýsuaflinn dróst saman um 500 tonn og karfaaflinn jókst um rúm 600 tonn.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 49.000 tonnum og var allur síldarafli. Í samanburði við afla september mánaðar 2005 hefur síldaraflinn aukist um rúm 22.000 tonn.

Skel- og krabbadýraafli var 248 tonn samanborið við 1.400 tonna afla í september 2005. Aflasamdráttur í rækju er um 660 tonn og kúfiski um 400 tonn.

Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2006 nemur rúmum 1.054.000 tonnum og er það 356.000 tonna minni afli en á sama tímabili árið 2005.