„Það er gaman að taka á móti nýju skipi og tilfinningin líklega svipuð og hjá 5 ára gutta sem fær nýjan bíl,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þingnesi. Steinunn SF-10, nýtt togskip í skipastól Skinneyjar-Þinganess, kom til Hafnar í Hornafirði fyrir skemmstu og er nú í Hafnarfirði þar sem sett verður í hana vinnslubúnaður á vinnsludekk.

Steinunn er sjötta skipið sem kemur til landsins á þessu ári í 7 skipa raðsmíðaverkefni. Enn er Þinganes SF ókomið en áætlað er að það verði í Hornafirði 21. desember.

Steinunn er 29 metra langt og 12 metra breitt togskip. Skipstjóri er Erling Erlingsson og yfirvélstjóri Þorgils Snorrason.

Eins vinnslulína í bolfiskflotanum

„Þetta hefur staðið lengi yfir og við skrifuðum undir samninginn í desember 2017. Vinnslulínan á millidekkinu er hönnuð í samstarfi við Micro, Völku og Gjögur. Það er áríðandi að vel takist til. Við breyttum líka vinnslulínum í skipunum sem við létum lengja í Póllandi, Skinney og Þóri, sem voru smíðuð í Tævan 2009. Þau fengu samskonar búnað og verður í Steinunni og Þinganesi,“ segir Ásgeir.

Bolfiskfloti Skinneyjar-Þinganess sem og skip Gjögurs úr raðsmíðaverkefninu verða því öll með eins vinnslulínu. Ný Steinunn og Þingnes leysa af hólmi eldri skip með sama nafni sem voru smíðuð 1991 og 2001 Ásgeir segir að þetta séu skip sem hafi verið mikið notuð, sérstaklega Steinunn. Gamla Steinunn og Hvanney hafa verið seld til Nesfisks í Garðinum og Þinganes er á söluskrá.

„Það verður kannski ekki mikil bylting í skipaþróun á 20 árum en það sem vinnst með endurnýjuninni er aukið rekstraröryggi og nýjungarnar felast meðal annars í því að rafmagnsspil er í nýju skipunum sem dregur úr olíunotkun og eru þægilegri í vinnslu. Þá eru tvær aðalvélar í skipunum sem eykur rekstraröryggi  ásamt því sem skipin eru mjög grunnrist  sem hentar okkur vel út af innsiglingunni. Við höfum líka væntingar um að orkunotkunin fari niður um 10-15%.

Tegunda- og stærðarflokkun með myndgreiningu

„Á vinnsludekki blóðgum við fiskinn og látum hann blóðrenna í sjó fyrir slægingu ásamt því að byrja að kæla hann lítillega niður. Með þessu móti náum við að þvo fiskinn mjög vel sem hefur gefið góða raun í vinnslunni. Við verðum með íslaust vinnslukerfi í þessum skipum. Við notum eingöngu forkældan sjó sem kælir fiskinn niður fyrir 1°.  Í lestinni er spíralakerfi sem keyrir á mínus 1°.  Þetta er sama hugmynd og í ísfisktogurum Brims en nálgunin er töluvert önnur. Við myndgreinum fiskinn og söfnum honum saman í 350 kg skammta í  kælikör sem eru með 700 lítra af kældum sjó. Þar er hver skammtur kældur niður í 0° og við náum því með því að tímastýra kælingunni á hverjum skammti fyrir sig.   Með myndgreiningarbúnaðinum frá Völku er fiskurinn tegunda- og stærðarflokkaður. Við erum farnir að keyra þetta kerfi um borð í Þóri og það lofar mjög góðu. Það sem er ólíkt hjá okkur er að fiskurinn er myndaður kyrrstæður en ekki í flæði. Þess vegna hefur það tekist mjög vel að tegunda- og stærðarmæla fiskinn og frávik nánast engin frá upphafi.  Það að kæla fiskinn í aðskildum kælikörum í framhaldi af stærðar- og tegundaflokkun tryggir einnig jafnari kælingu þar sem mistór fiskur fær mislangan tíma í kælifasa,“ segir Ásgeir.

Sparar mikla vinnu

Þessi tækni sparar mikla vinnu uppi á dekki. Nú sér tæknin um að tegundar- og stærðarflokka en ekki sjónrænt mat sjómannanna. Fiskurinn kemur svo rétt flokkaður inn til vinnslunnar sem eykur skilvirknina til muna. Með þessu móti getum við farið að undirbúa sölu á hráefninu fyrr en við höfum gert hingað til og þannig tryggt afhendingaröryggið til kaupenda með lengri fyrirvara

„Með þessu teljum við að við getum náð því að fara eins langt og hægt er að hámarka gæði afurðanna. Fyrstu tölur sýna mjög góðan árangur og við náum að stórauka gæðaöryggið.“

Ráðgert er að nýja Steinunn SF fari til veiða um miðjan febrúar á næsta ári.