Fiskafli íslenska flotans er áætlaður 1.667 þús. tonn á árinu 2005 samkvæmt Fiskistofu. Aflatölur fyrir janúar-nóvember hafa nú þegar borist og því er um að ræða aflaspá Fiskistofu fyrir desember. Aflinn á árinu 2005 verður samkvæmt spánni sá minnsti frá árinu 1995 þegar hann var 1.605 þús. tonn. Mestur var aflinn árið 1997, eða 2.199 þús. tonn. Til samanburðar var aflinn á árinu 2004 1.728 þús. tonn, eða tæplega 4% meiri en árið 2005.

Helstu skýringar á minni afla á nýliðnu ári m.v. árið á undan er minni þorsk-, úthafskarfa-, rækju- og kolmunnaafli. Loðnuaflinn á árinu 2005 verður líklega rúm 600 þús. tonn sem er undir meðaltali síðustu ára. Nokkur óvissa er um ástand loðnustofnsins fyrir komandi vetrarvertíð.

Að gefinni þessari aflaspá fyrir nýliðið ár má áætla að aflaverðmætið árið 2005 hafi dregist saman um 3% að raunvirði samanborið við árið 2004. Árið 2005 verður því ekki gott ár fyrir sjávarútveginn á margan hátt, lítill afli, sterk króna og hátt olíuverð. Hátt afurðaverð í erlendri mynt er ljósi punkturinn, segir í frétt Greiningar Íslandsbanka.