Samkvæmt upplýsingum sem koma fram á blogg-síðu Össurs Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra verður greint frá uppsetningu nýrrar aflþynnuverksmiðju á Akureyri nú í hádeginu. Fyrsti hluti verksmiðjunnar mun skapa 40-50 ný störf, sem líklegt er að fjölgi verulega með síðari áföngum. Það er ítalska félagið Becromal sem mun standa að verksmiðjunni í samvinnu við Íslendinga.

Í grein sinni segir Össur að á Akureyri muni hann fagna sögulegum áfanga í iðnsögunni. Þar er verið að undirrita tvo samninga sem marka upphaf hátæknilegs úrvinnsluiðnaðar á áli á Íslandi.

Fyrri samningurinn er um umfangsmikil raforkukaup af Landsvirkjun, og hinn síðari er um lóð, aðstöðu og fjárfestingakjör gagnvart Akureyrarbæ. Athöfnin verður í Listasafninu í hádeginu, og iðnaðarráðherrann, sem hefur fylgst með áhuga á málinu, heldur þar litla fagnaðartölu.

Fyrirtækið, sem Íslendingarnir eru í samvinnu við heitir Becromal. Það er ítalskt að uppruna, og framleiðir það sem við höfum kallað aflþynnur. Það er íslenskun á útlenska orðinu "capacitor".Aflþynnur eru rafhúðaðar álþynnur sem eru notaðar í rafþéttaiðnaði.

"Becromal er nú þegar leiðandi fyrirtæki á þessu sviði, og rekur starfsemi í Noregi, Sviss, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Það er athyglisvert, að stofnandi Becromal, Harry Rosenthal, er líka vel þekktur myndhöggvari sem hefur sýnt verk úr áli vítt um heim - svo það er náttúrlega viðeigandi að undirritunin og fagnaðurinn fer fram í Listasafninu á Akureyri í hádeginu," segir iðnaðarráðherra í spjalli sínu.

Fyrsti hluti verksmiðjunnar mun skapa 40-50 ný störf, sem líklegt er að fjölgi verulega með síðari áföngum. Össur telur að þetta sé ákjósanleg stærð fyrir Akureyri, og heppilegur áfangi sem menn byrja á.

"Íslendingar hafa alltaf talað mikið um nauðsyn þess að koma upp úrvinnslu á áli á Íslandi, og svo er fyrir að þakka þrautseigju og úthaldi Akureyringa að það er að verða að veruleika. Aflþynnudæmið er hátækniframleiðsla - og með nýju verksmiðjunni verður Akureyri aftur komin í forystu í íslenskum iðnaði einsog í gamla daga. Flott hjá norðanmönnum," segir iðnaðarráðherra.