Aflþynnuverksmiðja Becromal á Krossanesi við Eyjafjörð  verður gangsett nú í ágúst. Gauti Hallsson, framkvæmdastjóri Becromal Íslandi ehf., segir allan undirbúning vera samkvæmt áætlun.

„Það munu um 35 manns starfa við verksmiðjuna til að byrja með á þessu ári, en síðan smám saman aukið við. Það er stefnt að því að fullum afköstum verði náð í lok næsta árs."

Gauti segir orku til framleiðslunnar tryggða með samningi við Landsvirkjun. Þar er gert ráð fyrir að Becromal kaupi 75 megavatta afl með möguleika á aukningu upp í 100 megavött síðar.   Þarna verður um að ræða stærstu verksmiðja sinnar tegundar í heiminum og á að skapa um 90 störf og afleidd störf verða ríflega tvöfalt fleiri. Verksmiðjan er reist í samstarfi við fjárfestingafélagið Strokk Energy sem á um 40% á móti 60% hlut Becromal Íslandi ehf. sem nú er í eigu þýska raftækjaframleiðandans EPCOS.  Fjárfestingin nemur um 80 milljónum dollara.