Aflýst hefur verið öllum brottförum á flugvellinum í Brussel í Belgíu í dag vegna sérstaks verkfallsdags sem þrjú verkalýðsfélög skipulögðu. Flugi Icelandair til og frá Brussel í dag hefur því verið aflýst.

Flugvöllurinn hafði fyrr um helgina varað við allt að átta klukkutíma biðtíma á flugvellinum vegna verkfallsins.

Það hefur ríkt óreiða á ýmsum evrópskum flugvöllum í vor er fluggeirann fór að taka við sér eftir kórónuveirufaraldurinn.

Óreiða á Heathrow

Stjórnendur Heathrow flugvallarins í London hafa beðið flugfélög um að aflýsa 10% af flugum sínum í dag vegna slæmrar stöðu í farangursafgreiðslu. Hundruð farþega þurftu að bíða í meira en þrjá klukkutíma um helgina til að fá farangur sinn afhentan án þess að fá nokkra skýringu frá starfsfólki.

Í umfjöllun SkyNews segir að flugfélögum sé ekki skylt að aflýsa flugum heldur er um að ræða beiðni frá flugvellinum sjálfum. Flugfélögum var gefinn kostur að dreifa farþegum sín á milli.

Í fréttinni segir að meðal flugfélaga sem aflýstu flugum á Heathrow í dag voru Virgin Atlantic, Flybe, Air France, Air Canada, TAP Portugal, Loganair, British Airways, Delta Air Lines, Brussels Airlines, Scandinavian Airlines, Aer Lingus, ITA Airlines, Eurowings, Lufthansa, KLM og Bulgaria Air.