Verkföllum VR og Eflingar sem hefjast áttu á miðnætti á miðvikudag hefur verið aflýst. Á Facebook síðu Eflingar segir að árangur hafi náðst í viðræðunum sem nánar verði kynntur á morgun.

Á vef Samtaka atvinnulífsins segir að formenn Efling, VR og framkvæmdastjóri SA hafi skrifað undir samkomulag um að aflýsa verkföllum sem hófust 22. mars á 40 hótelum og hjá rútufyrirtækjum. Næsta verkfallshrina átti að standa frá miðnætti á miðvikudag og fram á miðnætti aðfaranótt laugardags.

Verkföll strætóbílstjóra hjá Kynnisferðum á háannatímum halda hins vegar áfram að því er RÚV greinir frá.

Samninganefndir SA og verkalýðsfélaganna hafa verið við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara frá því í morgun og standa enn yfir að því er Mbl greinir frá. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari vísaði fjölmiðlum út úr húsinu í kvöld og bar við hve viðkvæm staða viðræðnanna væri.