„Flugið hefur sjaldan raskast svona mikið,“ segir Ingi Þór Guðmundsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið . Þar er greint frá því að frá því um miðjan nóvember, þegar lægðir byrjuðu að streyma til landsins, hafi 559 ferðir hjá Flugfélagi Íslands verið blásnar af eða þeim frestað.

Í nóvember þurfti Flugfélagið að slá 81 ferð af, 165 í desember, 89 í janúar og 167 í febrúar. Og þótt aðeins séu liðnir tólf dagar af marsmánuði hafi hingað til þurft að aflýsa 57 ferðum í mánuðinum.

Ingi Þór segir að í febrúar hafi þurft að aflýsa um 40% allra ferða til Ísafjarðar. Það sem hafi hins vegar mest áhrif sé rysjótt veðrátta í höfuðborginni þar sem oft hafi verið hvasst eða éljagangur.