Sérstök hátíðarútgáfa af Viðskiptablaðinu kemur út í dag í tilefni af 20 ára afmæli blaðsins. Í blaðinu eru viðtöl við áhrifafólk í stjórnmálum og viðskiptum árið 1994 og áhrifafólk í dag.

Á meðal þeirra sem rætt er við er Hörður Sigurgestsson , þáverandi forstjóri Eimskips, Davíð Oddsson , þáverandi forsætisráðherra, Sighvatur Björgvinsson þáverandi viðskiptaráðhera, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þáverandi borgarstjóra, Kristinn Björnsson þáverandi forstjóra Skeljungs, Sigurgeir Sigurðsson þáverandi bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og Friðrik Pálsson, þáverandi forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfystihúsanna.

Seldi pylsur og myndbandsspólur

Einnig eru viðtöl við marga forstjóra þar sem þeir ræða um það hvað þeir voru að gera árið 1994.

Finnur Árnason árið 1994
Finnur Árnason árið 1994
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Meðal þeirra eru Finnur Árnason forstjóri Haga sem var á þessum árum markaðsstjóri Sláturfélags Suðurlands. Finnur segir frá því að SS hafi selt 20.000 pylsur, sem var pakkað með með kvikmyndinni Með allt á hreinu með Stuðmönnum. Í kjölfarið voru svo tilboð með fleiri íslenskum kvikmyndum.

Í blaðinu er einnig farið yfir það hvað var að gerast í heimi tískunnar árið 1994, hvað gerðist markvert í íþróttum og það hvernig helstu hagtölur hafa þróast á síðustu tuttugu árum. Fjallað er um forstjórabílana á tíunda áratugnum, vinsælustu kvikmyndirnar, sjónvarpsþættina og hvað var að gerast í íslenskri menningu á þessum tíma. Stærstu fyrirtæki landsins árið 1994 eru kortlögð og farið er yfir helstu uppfinningar ársins og nokkur stórfyrirtæki sem stofnuð voru á afmælisári blaðsins.