*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 1. september 2020 11:35

Afmarka þarf ríkisaðstoð Icelandair

SKE telur að afmarka þarf ríkisábyrgð Icelandair Group, slíkt sé ekki gert núna. Stofnunin leggur fram fjögur atriði sem skoða þarf.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið telur að mikilvægt sé að „áformuð ríkisábyrgð sé afmörkuð eins og kostur er.“ Bæði varði það hagsmuni keppinauta Icelandair en líka hagsmuni viðskiptavina og efnahagslífs af virkri samkeppni. Þetta kemur fram í umsögn SKE til fjárlaganefndar Alþingis vegna fyrirhugaðri ríkisaðstoð til Icelandair Group.

Áform ríkisaðstoðar byggja á því að stjórnvöldum sé kleift að bæta fyrir tjón sem ákveðin fyrirtæki hafi orðið fyrir vegna óvenjulegra atvika, í þessu tilviki er það vegna Covid-19 faraldrinum. SKE tekur fram að „hinn samkeppnislegi vandi sem stjórnvöld standa frammi fyrir, við ákvörðun um þessa tilteknu ríkisaðstoð, endurspeglast í því að nær öll fyrirtæki í flugrekstri, flugþjónustu og afleiddum greinum á þessu sviði hér á landi hafa orðið fyrir tjóni af sömu orsökum.“ 

Ríkisábyrgð til handa Icelandair geti því „haft bein og óbein áhrif á fjölda fyrirtækja á fjölbreyttum sviðum flugs, flugtengdrar starfsemi og ferðaþjónustu.“ Þrátt fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi samþykkt ríkisaðstoðina þurfi íslensk stjórnvöld að ábyrgjast að skaðleg áhrif sökum ríkisaðstoðarinnar verði sem minnst.

Óljóst að hvaða leyti Icelandair Group muni geta nýtt ríkisaðstoðina

Í skilmálum lánsfjármögnunar stendur að einungis sé heimilt að nýta lánalínurnar til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði. Hins vegar er umrædd ríkisaðstoð ekki bundin við flugrekstur félagsins og telur SKE því óljóst að hvaða leyti Icelandair Group muni geta nýtt aðstoðina.

Icelandair sé í samkeppni við marga minni keppinauta á hinum ýmsu sviðum, meðal annars í gegnum innanlandsflug, fraktflug og ferðaskrifstofu Icelandair. Þeir samkeppnisaðilar muni verða fyrir skaðlegum áhrifum vegna ríkisaðstoðar af því tagi sem um ræðir og því mikilvægt að tryggja að áformuð ríkisaðstoð afmarkist við flugrekstur félagsins.

Nýtist einungis til flugrekstar

Meðal annars vegna ofangreindra atriða leggur SKE fram fjögur atriði sem stofnunin telur nauðsynlegt að verði tekin til nánari athugunar. Í fyrsta lagi að tryggt verði að stuðninginn verði aðeins hægt að nýta til flugreksturs.

Í öðru lagi að áhrif ríkisaðstoðarinnar á keppinauta Icelandair verði metin og ákveðið hvort þurfti stuðningsaðgerðir gagnvart þeim, til þess að ná fram markmiðum sem liggja til grundvallar áformaðri ríkisaðstoð. Í þriðja lagi að greina hvaða aðgerðir stjórnvöld geti gripið til að draga úr aðgangshindrunum inn á viðkomandi markaði.

Í fjórða og síðasta lagi þarf að huga að þeirri umgjörð sem stjórnvöld hafa skapað atvinnurekstri á Keflavíkurflugvelli. Þarf þurfi meðal annars að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði.

Innkoma PLAY þýðingarmikil

Fram kemur að oft sé því haldið á lofti að Icelandair búi við nægt samkeppnislegt aðhald frá erlendum flugfélögum. SKE telur mikilvægt að gera greinarmun á samkeppni annars vegar af hálfu flugfélaga sem byggja leiðakerfi sitt á heimastöðvum erlendis og hins vegar samkeppni þar sem leiðakerfið hefur Keflavíkurflugvöll sem grunnpunkt.

Segir stofnunin að starfsemi Iceland Express og síðar WOW air hafi eflt samkeppni verulega sem leiddi meðal annars til verulegra verðlækkana og fjölgunar áfangastaða. Því telur Samkeppniseftirlitið að áform PLAY um að hefja flugrekstur séu þýðingarmikil í samkeppnislegu tilliti.

Mikilvægt sé að tryggja að téð ríkisaðstoð vinni ekki gegn nýrri samkeppni af þessu tagi. „Með því yrðu neytendur, fyrirtæki og íslenskt atvinnulíf svipt ábata af virkri samkeppni“. Segir enn fremur að SKE sé tilbúið að liðsinna nefndinni frekar við vinnslu málsins.