Afnám bankaleyndar gæti haft í för með sér varanlegan fjármagnsflótta, skrifar  Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir þar að ef almenningur og fyrirtæki geti ekki treyst því að jafn sjálfsögð réttindi og bankaleynd séu virt að lögum þá muni fjármagn streyma úr landinu um leið og tækifæri gefst.

Guðjón segir að á Íslandi gildi reglur um bankaleynd hliðstæðar þeim sem er að finna í helstu nágrannalöndum okkar.

„Fjármál bæði heimila og fyrirtækja eru viðkvæm og því nauðsynlegt að algjört traust ríki á milli fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra," segir hann og bætir við að það taki áratugi að byggja upp það traust og þá tiltrú.

„Nú þegar við stöndum frammi fyrir að sjá á bak stórum hluta af bankakerfi okkar megum við síst við því að sjá á bak tiltrú á lagaumgjörðina," skrifar hann enn fremur.

Bankaleynd til að verja hagsmuni almennings

Guðjón segir að bankaleynd sé til að verja hagsmuni almennings. Vakni hins vegar grunsemdir um lögbrot sé engin fyrirstaða fyrir rannsóknaraðila að fá aflétt bankaleynd. Slík leynd sé enda ekki hugsuð sem skálkaskjól fyrir lögbrot.

„Dómsmálaráðherra hefur fullvissað okkur um að bankahrunið verði rannsakað. Öll gögn og allar færslur eru í þrotabúunum og engin hætta á að þau spillist. Afnám bankaleyndar breytir engu fyrir þá rannsókn. "

Hann lýkur grein sinni með því að segja að  við eigum ekki, þrátt fyrir bankahrunið, að hlaupa til og bylta öllum hefðbundnum réttarreglum. „Við eigum að treysta rannsóknaraðilum til að sinna vinnu sinni og einbeita okkur að því að byggja upp nýtt fjármálakerfi sem hvílir á trausti og hefðbundnu vestrænu réttarfari."