Hagspár greiningardeilda stóru viðskiptabankanna þriggja og ASÍ fyrir næstu þrjú árin gefa til kynna bjartar horfur í íslensku efnahagslífi.

Það kemur væntanlega engum á óvart að ein stærsta óvissan fram undan ríkir um afnám hafta enda er óvissan tiltölulega margþætt. Í fyrsta lagi er óljóst hvort þau verða afnumin með öllu eða hvort létt verði á þeim í litlum skrefum. Þá er tímasetningin einnig óljós en í júlí skipaði Fjármálaráðuneytið sérstakan ráðgjafahóp um losun fjármagnshafta en engin föst dagsetning hefur verið gefin út um það hvenær hópurinn kynnir niðurstöður sínar.

Flestir greiningaraðilar eru sammála um að aðstæður til afléttingar hafta eru mjög góðar um þessar mundir. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segist bjartsýnn á að þau skref sem stigin verða til afnáms hafta muni ekki valda miklu raski fyrir heimili og fyrirtæki.

„Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að fjármálaráðherra lofi því að gengið muni ekki falla mikið. Hvort það verði innan fimm til tíu prósenta vikmarka er erfitt að segja en það var ekkert óalgeng sveifla fyrir tíma gjaldeyrishaftanna, þegar krónan var frjáls. Síðan eru fyrirtækin búin að hreinsa til í efnahagsreikningum sínum og eru því betur í stakk búin til að takast á við svona högg,“ segir Daníel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .