Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn um drög að lagafrumvarp um póstþjónustu en þar er m.a. lagt til að afnema einkarétt hins opinbera á sviði póstþjónustu. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld samhliða því að huga að breyttu eignarhaldi á Íslandspósti hf. „enda margvíslegar áskoranir sem fylgja því að starfrækja fyrirtæki í opinberri eigu á samkeppnismarkaði.“

Hið opinbera á samkeppnismarkaði

Viðskiptaráð bendir á að í sögulegu samhengi hefur einkaréttinum verið ætlað að standa undir kostnaði við að tryggja alþjónustu. Tækniframfarir hafa þó degið út samfélagslegu mikilvægi hefðbundinnar póstþjónustu. Bréfum innan einkaréttar hefur fækkar verulega, á sama tíma og íbúðum hefur fjölgað mikið. Ráðið bendir á að minnkandi eftirspurn eftir hefðbundinni póstþjónustu dragi úr hagkvæmni þessa rekstrar en stefna Íslandspósts hf. er að skila árlegum hagnaði sem nemur 10% af eigin fé og samhliða auka verðmæti félagsins með því að stunda arðbæran rekstur.

„Unnt væri að ná umræddri arðsemi eigin fjár með gjaldskrárhækkunum en þá er um leið ýtt enn frekar undir minnkandi eftirspurn. Hraður vöxtur og ásættanleg arðsemi næst því seint á hnignandi markaði.

Stjórnendur Íslandspósts hafa mætt þessari áskorun með uppbyggingu starfsemi sinnar á samkeppnismörkuðum. Fyrir fyrirtæki í einkaeigu væri þetta eina rétta leiðin til að mæta breyttum rekstraraðstæðum. Fyrir fyrirtæki í opinberri eigu getur þetta skapað óæskilegar raskanir á samkeppnismörkuðum. Með það í huga ættu stjórnvöld að marka stefnu um framtíðarfyrirkomulag á eignarhaldi Íslandspósts samhliða afnámi einkaréttar. “