Löggiltir iðnaðarmenn eru eina fólkið sem má vinna fjölda starfa, samkvæmt iðnaðarlögum sem hafa verið í gildi síðan 1978. Það varðar sektum ef aðrir en meistarar, sveinar eða iðnnemar í viðkomandi greinum vinna þau störf sem um ræðir í atvinnuskyni.

Bannað er að hafa það að atvinnu að mála hús, nema maður hafi meistarapróf, sveinspróf eða sé nemandi í málaraiðn. Það sama á við um greinar á borð við hársnyrtingu, ljósmyndun og skrúðgarðyrkju. Alls eru um sextíu iðngreinar þess eðlis að það varðar refsingu fyrir flest fólk að hafa þær að atvinnu.

Ekkert gerist í ráðuneytinu

Frumvarp um breytingar á iðnaðarlögum var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2013-2014 og átti það að vera samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um endurskoðun laganna. Á meðal niðurstaðna nefndarinnar voru að fækka ætti löggiltum iðngreinum.

Frumvarpið hefur hins vegar ekki verið lagt fram á Alþingi. Engin hreyfing hefur verið á málinu innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins undanfarin misseri samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Samkvæmt sömu heimildum hefur vinna ráðuneytisins í málinu fyrst og fremst legið niðri vegna andstöðu fagfélaga við miklar breytingar á iðnaðarlögunum.

Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að síðustu tvö árin hafi lítið gerst í endurskoðun iðnaðarlaga. Hún staðfestir að lögverndun starfsheita hafi verið hitamál. „Við höfum haft svolítið sterka skoðun á því. Það eru mörg fyrirtæki hérna inni sem eru með lögvernduð starfsheiti og vilja halda fast í þá lögverndun,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .