Í morgun lagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra fram frumvarp um afnám fjármagnshafta á ríkisstjórnarfundi. Hann vonast til að Alþingi ljúki afgreiðslu málsins í þessum mánuði.

Fjármálaráðherra sagði þetta þegar hlé var gert á ríkisstjórnarfundi. „Þarna eru á ferðinni tvö frumvörp sem við tókum til umræðu og hyggjumst afgreiða á mánudaginn. Þessi mál eru þannig vaxin að við hyggjumst kynna þau líka fyrir samráðshópnum sem hefur verið starfandi. Þau þurfa síðan að lokinni afgreiðslu hér að fara fyrir þingflokka.“ Málið verður að því loknu kynnt almenningi, á mánudag eða í síðasta lagi á þriðjudag. Þessu greinir RÚV frá.

Efnisatriðin verða kynnt eftir að málið hefur verið kynnt samstarfshópi flokkanna og þingflokkum. Bjarni segist skynja góðan vilja í öllum þingflokkum fyrir því að afgreiða þetta mál. Ræða þurfi málið og það fari til nefndar en hann vonast á sama tíma til þess að ljúka þessu með því að gera þetta að lögum í þessum mánuði.

Afnám hafta lýkur ekki að fullu með afgreiðslu frumvarpanna í morgun

Bjarni segir að mögulega þurfi fleiri frumvörp að koma fram á haustþingi í tengslum við afnámið. Afnámi hafta ljúki ekki að fullu með afgreiðslu frumvarpanna tveggja sem voru lögð fram í morgun. Það er ætlun að leggja á stöðugleikaskatt sem á að skila að minnsta kosti 500 milljörðum króna.