Markaðsaðilar í Bandaríkjunum velta nú fyrir sér áhrifum sem hlotist geta af því að Bandaríkjaþing ákveði hugsanlega að framlengja ekki afslátt á einum skattaliða á launatekjur, svokölluðum “payroll tax”. Þetta kemur fram í morgunpósti IFS greininar. Þar segir að skatturinn standi nú tímabundið í 4,2% en náist ekki samkomulag um framlengingu afsláttarins muni skatturinn sjálfkrafa fara aftur í 6,2% í janúar.

Margir telji framlengingu á skattafslættinum mjög mikilvæga og gæti það fært hagvaxtarspár fyrir 2012 niður í 1,5% í stað 2,5%, verði afslátturinn ekki framlengdur. Hagvaxtarspár hafi síðan mikil áhrif á verðþróun hlutabréfa og myndi lækkun á hagvaxtarspám valda lækkun á bandarískum hlutabréfamörkuðum.