Nú liggur fyrir Alþingi tillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um að fella niður 59% toll á innfluttu kartöflusnakki. Tollar á snakkvörur útlistast á þennan máta:

  • Innflutt snakk úr niðursneiddum kartöflum - ber 59% toll.
  • Innflutt snakk framleitt úr kartöfluflögum - ber ekki toll ef það er flutt inn frá ESB, en annars ber það 20% toll.
  • Innflutt maíssnakk búið til úr deigi - ber engan toll ef það er frá ESB.
  • Maíssnakk framleitt í Bandaríkjunum úr pressuðu poppkorni - ber 7,5% toll.
  • Snakk framleitt á Íslandi úr innfluttu kartöflumjöli - ber engan toll.

Í viðtali á Bylgjunni síðastliðinn föstudag upplýsti Willum Þór Þórsson, nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, að nefndin hefði fengið mikil viðbrögð frá innlendum snakkframleiðendum, sem flyttu inn hráefni í framleiðslu sína sem bæru tolla. Nefndin þyrfti því að skoða „víðtækari hagsmuni.“.

Hagsmunir framleiðendanna felast þá í því að tollar á hið innflutta og fullkláraða snakk nema rétt rúmlega 60% meðan tollar á hráefnið sem framleiðendurnir flytja inn frá Evrópusambandinu nema núlli. Þannig geta þeir haldið verði á eigin vörum niðri miðað við þær innfluttu.

Neytendur borga brúsann

Í frétt á vef Félags atvinnurekenda kemur fram að neytendur greiddu rúmlega 160 milljónir króna í tolla af vörum sem falla undir þetta tollskrárnúmer á tólf mánaða tímabili. Hér er því um mikla hagsmuni að ræða fyrir neytendur. Í fréttinni er vakin athygli á því að þessi ofurtollur á snakk sé ekki verndartollur fyrir íslenska kartöflubændur:

Ofurtollar á innflutta matvöru eru yfirleitt réttlættir með því að verið sé að vernda innlenda búvöruframleiðslu. Það getur ekki átt við um snakktollana. Innlendir snakkframleiðendur, Iðnmark og Þykkvabæjar, anna aðeins litlu broti innanlandsmarkaðar fyrir snakk.

Í kartöflusnakkið þeirra er notað lítið sem ekkert af innlendum kartöflum, heldur er það eftir því sem næst verður komist að stærstum hluta búið til úr innfluttu kartöflumjöli sem ber lága eða enga tolla.

Og séu einhverjir tollar á aðföngum til þessara tveggja fámennu vinnustaða sem anna litlu broti af innanlandseftirspurn er algjörlega fráleitt að rukka neytendur um hundruð milljóna króna í toll af öllu hinu snakkinu sem borðað er á Íslandi; það er nær að afnema líka tollana af aðföngunum.