Verði verðtrygging bönnuð til framtíðar er ljóst að lífeyrissjóðirnir geti ekki verðtryggt lífeyri sjóðfélaga sinna. Þá er ljóst að verðtrygging verður ekki bönnuð eða hömlur reistar gegn henni nema þá fram á veginn, að mati Helga Magnússonar, stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Í ræðu sinni á ársfundi lífeyrissjóðsins í dag sagði hann útilokað að sett verði afturvirk lög um afnám verðbóta á verðtryggðar kröfur.

„Það væri einfaldlega brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Fari svo að verðtrygging verði bönnuð, þá er ljóst að lífeyrissjóðir geta ekki verðtryggt lífeyri sjóðfélaga sem kæmi sér illa fyrir fólkið. Í þessu máli eru engir þættir einfaldir og ljóst er að umræða um þetta stóra mál verður að vera vönduð og málefnaleg en ekki í upphrópanastíl á kosningaári eins og við verðum nú vitni að. Hvað sem verður, munu lífeyrissjóðirnir aðlaga sig þeim reglum sem verða settar og eru í gildi hverju sinni.“