Á síðustu fimm árum hefur verið gríðarleg aukning í erlendri netverslun og á síðustu tveimur árum hefur innlend netverslun komið sterk inn. Stærstu áhrifavaldarnir eru AliExpress og aðrar kínverskar netverslanir en að undanförnu hefur hefur verslunin færst nær Íslandi. Þetta segir Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Póstinum, í umræðuþætti Íslandsbanka þar sem fjallað er um íslenska jólaverslun.

„Áhugi á netverslun hefur aukist hratt og mikið, til dæmis vorum vorum við að gera könnun meðal netverslana og yfir 80% af þeim sem reka þær verslanir munu leggja meiri áherslu á netverslun,“ segir Vésteinn. „Fyrirtæki ætla sér bæði að leggja meiri pening og vinnu í þær. Við erum þegar komin með stórar netverslanir sem afgreiða hratt vöruna og eru að fullu samkeppnishæfar við erlendar verslanir.“

Brynja Dan Gunnarsdóttir, markaðsstjóri S4S, segir mikið hafa breyst með afnámi vörugjalda þar sem verslanir gátu lækkað verð og gert sig samkeppnishæfari. Með aukinni netverslun muni verslunum fækka og þær jafnvel stækka í staðinn. Hún segir jafnframt söludaga eins og Singles Day og Black Friday vera metsöludaga í verslunum S4S.

Vésteinn tók undir það og segir álagið hjá póstinum vera mikið eftir þá daga. „Sendingarnar berast dagana á eftir og það er allt stapp fullt. Til að seta þetta í samhengi þá erum við að afhenda pakka til einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu með heimkeyrslu á 12 sekúndna fresti.“