Framkvæmdahópur stjórnvalda um afnám fjármagnshafta boðaði fulltrúa slitastjórna föllnu bankanna á sinn fund í dag. Tilgangurinn var að leita eftir sjónarmiðum þrotabúanna við afnám fjármagnshafta.

Síðustu daga hefur verið rætt um það í fjölmiðlum að flatur útgönguskattur verði lagður á útstreymi erlends gjaldeyris frá Íslandi og að eigendur aflandskróna skipti þeim í skuldabréf til 30 ára.

Lee Bucheit, lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda við afnám fjármagnshafta, staðfestir ekki að hluti af tillögum stjórnvalda sé að leggja á útgönguskatt. Hann býst við því að aðgerðum verði hrint í framkvæmd á árinu 2015, í „tiltölulega náinni framtíð," enda standi vilji stjórnvalda til þess að afnám fjármagnshafta gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Buchheit vildi ekki tjá sig um orð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingar, þess efnis að afnámsáætlun sé hagstæðari kröfuhöfum en íslenskum heimilum og lífeyrissjóðum, né um önnur efnisatriði áætlunarinnar.

VB sjónvarp ræddi við Lee Buchheit.

Beðist er velvirðingar á hljóðtruflunum.