Seðlabankinn í Sviss festi gengi svissneska frankans við evru fyrir þremur árum síðan og hefur reynt að halda gengi frankans gagnvart evru við 1,2 frá þeim tíma. Nú hefur seðlabankinn hins vegar afnumið festinguna og styrktist gengi gjaldmiðilsins um 13% gagnvart evrunni í kjölfarið. BBC News greinir frá þessu.

Seðlabankinn hrinti þessum aðgerðum í framkvæmd á sínum tíma til þess að koma í veg fyrir að efnahagsþrengingar og óvissa í Evrópu leiddi til þess að frankinn styrktist umfram það sem bankinn taldi eðlilegt. Nú telur hann hins vegar tímabært að afnema fastgengið.

Samhliða þessu lækkaði seðlabankinn stýrivexti úr -0,25% í -0,75%.

Tíðindin höfðu í kjölfarið mikil áhrif á hlutabréfamarkaði í Sviss, en SMI vísitalan í kauphöllinni í Zurich hefur lækkað um 8,54% og SPI vísitalan um 7,94% það sem af er degi.