Landsmenn þurfa ekki að nota grímur í verslunum eða á vinnustöðum frá og með næsta þriðjudegi, 25. maí. Áfram verður þó gerð krafa um grímur á hárgreiðslustofum og á sitjandi viðburðum líkt og á leiksýningum, bíósýningum, íþróttaviðburðum eða í kirkjuathöfnum. Þetta kemur fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Fjöldatakmörk hækka í 150 manns. Takmörkunum á gestafjölda sund- og baðstaða, skíða- og tjaldsvæða og safna verður aflétt og sömuleiðis á líkamsræktarstöðvum nema hvar þar mega að hámarki vera 150 manns í hverju rými.

Hámarksfjöldi áhorfenda eða gesta á sitjandi viðburðum fer úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnahólfi og veitingasala í hléi verður heimil. Regla um 200 manna hámarksfjölda í verslunum fellur einnig úr gildi.

Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, frá kl. 22 til kl. 23. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir miðnætti. Reglugerð um takmarkanir á skólastarfi fellur brott. Þess í stað gilda um skólastarf almennar reglur um samkomutakmarkanir.

„Sóttvarnalæknir segir í minnisblaði sínu til ráðherra að þótt fá smit hafi greinst undanfarið sé ekki búið að uppræta kórónaveiruna úr samfélaginu. Því þurfi að fara varlega í afléttingar þar til bólusetning verður orðin almennari þannig að um 60–70% þjóðarinnar (um 220.000 manns) hafi fengið a.m.k. eina sprautu. Gera megi ráð fyrir að það markmið náist síðari hlutann í júní,“ segir í lok tilkynningarinnar.