Afnám takmörkunarsvæða, fjöldatakmarkana atvinnuleyfa og afnám stöðvaskyldu er meðal þess sem er að finna í frumvarpsdrögum samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra sem kynnt var í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar í dag. Mögulegt er að breytingarnar opni á komu Uber og Lyft hingað til lands.

Tilefni frumvarpsins er að í janúar 2017 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum að stofnunin hefði til skoðunar leigubílamarkaðinn á Íslandi og hindranir að honum. Sambærilegt mál fór af stað í Noregi en fyrirkomulagið þar ytra er svipað því sem þekkist hér heima. Niðurstaðan í því máli var að norska ríkið hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum.

Í drögunum er gert ráð fyrir því að heimilt verði að aka án þess að gjaldmælir sé til staðar sé samið um verð á ferð fyrirfram. Bílar án gjaldmælis verða merktir með öðrum hætti en bílar sem hafa gjaldmæli. Þá er einnig gert ráð fyrir því að Neytendastofa muni hafa eftirlit með gjaldmælunum áfram en það eftirlit hefur verið í skötulíki undanfarin ár.

„Þetta felur það í sér að þegar ekið er í hefðbundnum leigubifreiðaakstri þar sem ekki er samið um heildargjald fyrir ferð fyrir fram er ávallt skylt að hafa löggiltan gjaldmæli í bifreiðinni. Hins vegar er ekki gerð krafa um að bifreiðar sem seldar eru á leigu þegar samið er um heildargjald fyrir ekna ferð fyrir fram séu útbúnar slíkum mælum. Þannig er sem dæmi ekki gerð krafa um gjaldmæli í bifreið sem aðeins er nýtt til aksturs í lengri eða styttri útsýnisferðir og samið er um heildarverð ferðar fyrir fram,“ segir í athugasemdum með frumvarpinu.

Vonast er til þess að með þessari breytingu skapist skilyrði til að veita fjölbreyttari þjónustu, „þar á meðal þjónustu á borð við þá sem veitt er af þekktum farveitum eins og Uber og Lyft.“

Til að geta fengið leyfi til að aka leigubíl mun ökumaður þurfa að hafa heimilisfesti hér á landi, hafa gott orðspor, viðeigandi starfshæfni og fullnægjandi fjárhagsstöðu samkvæmt reglugerð, vera eldri en 21 árs og hafa haft ökuréttindi B í minnst þrjú ár.

Hægt er að senda inn umsögn um frumvarpið til 20. júní. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 2020.