Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, hefur undirritað enn aðra forsetatilskipunina. Í þetta skiptið beinir hann sjónum að reglugerðum. Nýja tilskipun forsetans er sú að fyrir hverja reglugerð sem að bandaríska ríkið semur, þarf að afnema tvær reglugerðir sem voru þegar til. Frá þessu er greint á Politico .

„Þetta er stærsti gjörningur varðandi þessi mál sem að Bandaríkin hafa séð,“ sagði Trump áður en hann skrifaði undir tilskipunina. Trump sagði jafnframt að tilgangurinn væri ekki að afnema reglugerðir, heldur frekar að tryggja það að fyrirtækið gætu starfað eðlilega.

Forsetinn hafði lofað því að taka á regluverksfarganinu í Bandaríkjunum í kosningabaráttunni og varð enn staðfastari í þeirri trú eftir að hafa hitt forsvarsmenn minni fyrirtækja. „Við ætlum að fækka reglugerðum talsvert fyrir minni fyrirtæki - og raunar stór fyrirtæki, en það er annað mál,“ tók Trump einnig fram.