Þingmenn Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og Pírata hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Helgi Hjövar, þingmaður Samfylkingarinnar, er flutningsmaður frumvarpsins.

Með frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laganna verði felld brott. Segir þannig í fyrrnefndu lagagreininni að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Í síðarnefndu lagagreininni er einnig að finna undanþáguákvæði frá samkeppnislögum, sem segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Segir í greinargerð með frumvarpinu að með því sé lagt til að undanþágur frá samkeppnislögum er varði samráð, samruna og verðtilfærslu í mjólkuriðnaði verði felldar út úr lögunum. Sams konar tillaga hafi verið lögð fram á 139. löggjafarþingi, en tillagan hafi verið felld með 30 atkvæðum gegn 19.