„Við erum áhyggjufull yfir stöðunni. Að því sögðu finnst mér viðbrögð yfirvalda hafa verið yfirveguð og fumlaus til þessa. Meðan staðan er svona reynum við að halda okkar striki og gera eins vel og hægt er. Hótelin hafa fáa aðra kosti en að halda áfram að taka á móti gestum,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Eina breytingin núna sé sú að starfsmenn spritti hendur oftar en áður.

„Það var nokkuð um að hópar frá Asíu hefðu afbókað sig og í bili eru þeir eiginlega hættir að koma. Þá er ekki útlit fyrir að kínverska flugfélagið, sem hugði á ferðir hingað, sé væntanlegt í bráð. Það verður því ekki af þeirri aukningu frá Kína sem við vonuðumst eftir. Einstaklingar komu hins vegar þrátt fyrir allt saman og ekki útlit fyrir annað en að það haldi áfram,“ segir Kristófer.

Kristófer segir það sé illskást að faraldurinn hitti á þennan árstíma enda apríl og maí oftar en ekki erfiðustu mánuðirnir fyrir atvinnuveginn. Greinin sé þó nokkuð vön því að lenda í hinum ýmsu skakkaföllum. Nefnir formaðurinn í því samhengi gjaldþrot Wow air, kyrrsetningu Boeing 737Max vélanna og válynd veður. Verkföll starfsfólks á síðasta ári hafi síðan ekki hjálpað til.

„Til að lágmarka skaðann og halda sjó til framtíðar þurfum við að stunda virka og viðvarandi markaðssetningu á landinu. Þá er greinin í auknum mæli að verða andlag hinna ýmsu skatta og gjalda. Fjölmargir ráðamenn tala reglulega um að þeir hafi áhyggjur af því að greinin sé brothætt en samtímis fylgjumst við með hækkun fasteignaskatta, sem leggjast sérstaklega þungt á hótelin, og ný gjöld á borð við gistináttagjaldið verða til. Það er tímabært nú að staldra aðeins við, huga að rekstrarumhverfi greinarinnar og snúa vörn í sókn,“ segir Kristófer.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .