Silicor Materials hefur tekið til svara vegna fréttar RÚV í gærkvöldi um að forstjóra Silicor Materials hafi verið stefnt. Ástæða stefnunnar var vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja fyrirtækisins á Grundartanga skuli ekki háð mati á umverfisáhrifum.

Silicor Materials segir að engin stefna hafi borist forstjóra Silicor Materials eða öðrum sem er í forsvari fyrir fyrirtækið. Þá segir að ítrekað hafi verið birtar fréttir um að stefna ætti fyrirtækinu en fram að þessu hafi engin raunveruleg tilraun verið gerð til þess. Lögmaður Silicor hafi gert tilraunir til þess að fá stefnuna birta en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni.

Silicor segir að fyrirtækið hafi fylgt leiðbeiningum stjórnvalda í einu og öllu og vandað mjög til alls undirbúnings verkefnisins sem er langt á veg komið. Félagið segir einnig að umhverfisáhrif verksmiðjunnar séu óveruleg og þ.a.l. ekki þörf á umhverfismati. Skipulagsstofnun hafi komist að sömu niðurstöðu eftir að hafa leitað álits fagstofnanna og sveitarfélaga.

Hefur ekki áhrif á áform fyrirtækisins

Silicor segir að lokum að þótt að verði af stefnubirtingu þá muni það ekki hafa áhrif á undirbúning fyrirtækisins. Verksmiðjan muni hafa jákvæði áhrif á íslenskan efnahag og heildarfjárfesting vegna hennar nemur 120 milljörðum króna og um 450 störf verða við verksmiðjuna.