Áform eru uppi um að setja upp starfsstöð hér á landi fyrir greiðslumiðlun byggða á rafræna gjaldmiðlinum bitcoin samkvæmt Morgunblaðinu í dag, sem birtir viðtal við Svein Valfells eðlisfræðing sem hefur kynnt sér gjaldmiðilinn ítarlega.

„Leiðandi aðili á þessu sviði hefur ákveðið að ganga til samstarfs við nokkra íslenska frumkvöðla um að setja upp starfsstöð fyrir bitcoin-greiðslumiðlun hér á landi og við munum kynna það síðar í haust," segir Sveinn í viðtali við Morgunblaðið.

Sveini varboðið að halda fyrirlestur á ráðstefnu tileinkuð gjaldmiðlinum í London í sumar. Í fyrirlestrinum fjallaði Sveinn um þau skilyrði sem bitcoin þyrfti að uppfylla til þess að Íslendingar gætu tekið myntina upp.

„Þetta eru framtíðarpælingar, en fleirum hefur líka dottið í hug hvort bitcoin gæti orðið þjóðargjaldmiðill. Til dæmis var minnst á það í The Economist í vor. Mér þótti áhugavert að skoða það nánar," segir Sveinn í samtali við Morgunblaðið.