Vogunarsjóðirnir Centaurus og Paulson, sem eiga samanlagt um 32% hlut í hollenska félaginu Stork, hafa sett fram kröfu um að haldinn verði sérstakur hluthafafundur til að taka fyrir vantrausttillögu á stjórn, segir greiningardeild Landsbankans.

Auk þess er gerð krafa um að fyrirtækjakaup eða sala á hlut af fyrirtækinu sem nemur meira en 100 milljón evra (9,2 milljarðar króna) verði lagt fyrir hluthafa. Verði ekki að ósk þeirra muni þeir fara með málið fyrir dómstóla.  Stork er að íhuga kröfuna.

"Eignarhaldsfélagið LME, sem er í eigu Marels, Eyris og Landsbankans, á um 8% hlut í Stork. Marel hefur átt í óformlegum viðræðum við stjórnendur Stork um að kaupa þann hluta fyrirtækisins sem er í svipuðum rekstri og Marel, en stjórnendur Stork hafa einnig lýst vilja til að stækka þá rekstrareiningu, til dæmis með því að kaupa Marel," segir greiningardeildin.

"Vogunarsjóðirnir tveir vilja kljúfa fyrirtækið upp og selja hluta þess. Þeir höfðu betur í atkvæðagreiðslu á sérstökum hluthafafundi fyrir rúmum mánuði, en stjórn félagsins hafnaði þeirri niðurstöðu nýlega,? segir greiningardeildin.

?Í yfirlýsingu stjórnar Stork í gær ítrekar hún andstöðu sína við hugmyndir um að skipta félaginu upp. Þá er í tilkynningu haft eftir framkvæmdastjóra Stork að umrótið í kringum félagið haldi áfram og muni augljóslega hafa neikvæð áhrif," segir greiningardeildin.