Líkur eru á áframhaldandi samdrætti í hagkerfinu inn á næsta ár að því er fram kemur í leiðandi hagvísi greiningarfyrirtækisins Analytica, en miðað er við að hann hafi forspárgildi um vendipunkta í hagþróun eftir sex til níu mánuði.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum og hefur vísitalan verið birt mánaðarlega síðan vorið 2013. Hagvísirinn tekur gildið 94,3 í september, en hann fer í 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.

Slíkir hagvísar hafa verið reiknaðir fyrir flest iðnríki um áratugaskeið og byggja á því að framleiðsla hafi aðdraganda í öflun aðfanga og þegar stofnað er til fjárfestinga. Þannig er hún reiknuð á grundvelli þeirra þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferlisins, og eða veita upplýsingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu.

Af sex undirliðum hagvísisins lækka þrír þeirra nú frá því í ágúst, en framlag allra þriggja til lækkunar er áþekkt. Fimm af sex lækka hins vegar frá því í september á síðasta ári, en undirliðirnir eru aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup.

Þó langtímaleitni mikilvægra undirþátta hafi verið sterk upp á við þá hefur hún minna að segja í bráð vegna óvissu við ferðaþjónustu og önnur áhrif heimsfaraldurs Covid 19 á efnahagslíf og alþjóðastjórnmál.