Norðurlöndin okkar hafa oft fengið athygli á alþjóðavettvangi fyrir að reka efnahagsstefnu sem sameinar sterk ríkisfjármál með félagslegu ívafi og sterkt almannatryggingakerfi segja norrænu fjármálaráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu.

Á fundi norrænu fjármálaráðherranna þann 10. júní ítrekuðu ráðherrarnir að norræna þjóðfélagslíkanið krefðist sterks og fyrirsjáanlegs fjárlagagerðarferlis, jafnvel þó regluverk þjóðlandanna geti verið mismunandi. Fjármálaráðherrarnir ræddu einnig hvernig koma má á skilvirku fjárlagagerðarferli. Reynslan af erfiðleikum fyrri ára sýnir að þörf er fyrir langtímaáætlanir, sem hefur stuðlað að því að Norðurlöndin hafa skýra og sterka efnahagsstefnu.

Á fundinum var rætt um stöðu efnahagsstefnu á Norðurlöndum, skattmál og ýmis mál er varða ESB/EES löndin. Hvað varðar efnahagsástandið á Norðurlöndum, þá sögðu ráðherrarnir að fjárhagslega staða hins opinbera væri áfram sterk, jafnvel þó minnkandi efnahagsvöxtur á alþjóðavettvangi væri farinn að hamla útflutningsaukningu.

Fjármálaráðherrarnir samþykktu að stofnað verði nýtt norrænt tímarit um efnahagsstefnu. Gert er ráð fyrir að Norræna ráðherranefndin muni fjármagna hluta tímaritsins sem mun bera titilinn “Nordic Economic Policy Review”. Það er vilji fjármálaráðherranna að tímaritið veiti svör við þeim spurningum sem vakna í tengslum við efnahagsstefnu frá norrænu sjónarhorni og stuðli að umræðum um efnahagsmál á Norðurlöndum.

Í þeim tilgangi að fylgja eftir baráttu OECD gegn skattaflótta, samþykktu Norðurlöndin þegar árið 2006 að hefja viðræður við ríki sem veitt hafa skattaskjól á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Starfið heldur áfram og er mikilvægur dagskrárliður á næsta fundi fjármálaráðherra Norðurlandanna í Helsinki þann 28. október 2008.

Svíþjóð fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2008. Anders Borg fjármálaráðherra Svíþjóðar var gestgjafi fundarins í Saltsjöbaden.