Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis er lagt til að Orkustofnun verði veitt 101,4 milljóna króna tímabundið framlag, á fjárlögum næsta árs, til að hefja undirbúning að útgáfu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg. Kristinn Einarsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun, segir að peningarnir verði meðal annars notaðir til að byggja upp þekkingu innan stofnunarinnar í þessum málum í líkingu við starfsemi olíustofnana í öðrum löndum.

Ríkisstjórnin samþykkti á árinu 2005 að hefja undirbúning olíuleitar á norðanverðu Drekasvæðinu. "Hljóðvarpsendurmælingar og aðrar jarðeðlisfræðilegar mælingar sem gerðar hafa verið á svæðinu gefa fyrirheit um að olíu og gas kunni að vera að finna þar," segir í rökstuðningi með áliti meirihluta fjárlaganefndar þingsins. Þörf er þó á frekari rannsóknum. "Því er lagt til að haldið verði áfram undirbúningi og útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu olíu á svæðinu og við það miðað að hægt verði að bjóða út rannsóknaleyfi haustið 2008."

Sjá nánari umfjöllun í helgarútgáfu Viðskiptablaðsins.