*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 1. október 2019 14:16

Áfram eykst veltan í Kauphöllinni

Velta á bæði hluta- og skuldabréfamarkaði Kauphallarinnar jókst töluvert á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Velta á innlendum hlutabréfamarkaði nam 138,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs og jókst um 33,8% frá sama tímabili í fyrra. Velta á markaðnum hefur tekið vel við eftir töluverðan samdrátt í veltu á síðasta ári þegar velta lækkaði um 20% frá fyrra ári og hafði raunar lækkað nær samfellt frá öðrum ársfjórðungi 2017.Velta á fyrstu níu mánuðum ársins nam 451,8 milljörðum króna og jókst um 22,3% frá sama tímabili í fyrra. 

Það sem af er ári hafa Fossar Markaðir verið með hæstu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði eða 21,9%, Arion banki er með þá næstmestu eða 20,5% og Íslandsbanki með þá þriðjumestu eða 18%.

 

Velta á skuldabréfamarkaði jókst einnig töluvert á þriðja ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra. Velta á markaðnum nam samtals 284,5 milljörðum króna og jókst um 19,6% frá sama tímabili í fyrra. Velta á markaðnum hefur tekið talsvert við sér það sem af er þessu ári eftir að hafa dregist nær samfellt saman frá þriðja ársfjórðungi árið 2015 til þriðja ársfjórðungs í fyrra. Það sem af er ári nemur veltan á skuldabréfamarkaði 995,8 milljörðum króna sem er 34% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Það sem af er ári hefur Kvika banki verið með hæstu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði eða 18,8% á árinu en Íslandsbanki kemur annar með 18,3% hlutdeild.