Velta á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í marsmánuði nam 75,2 milljörðum króna og jókst um 9,4 milljarða frá sama tímabili í fyrra eða um 14,3%. Var þetta níundi mánuðurinn í röð þar sem velta á markaðnum eykst.

Samanlögð velta síðustu 12 mánaða nemur nú 674,9 milljörðum króna og hefur ekki verið meiri frá hruni. Þá hefur veltan aukist um 166,9 milljarða frá sama tímabili fyrir ári síðan eða um 32,8%.

Mest viðskipti í mánuðinu voru með bréf Marel eða 12,1 milljarðar en þar á eftir komu bréf Heimavalla með 11 milljarða veltu eftir kaup norska fasteignafélagsins Fredensborg á ríflega 60% hlut í félaginu. Þar á eftir komu svo bréf Arion banka með 8,2 milljarða veltu, bréf Festi og VÍS með 5,6 milljarða veltu.

Þriðja mánuðinn í röð var Arion banki með mestu hlutdeildina í miðlun á markaðnum eða 18,9% en þar á eftir komu Arctica Finance með 17,6% og Kvika banki með 17%.