Útlit er fyrir að hagnaður félaga í S&P 500 vísitölunni á þriðja ársfjórðungi hafi vaxið um tæp 17% milli ára. Vöxturinn er meiri en væntingar voru um í upphafi fjórðungsins en minni en verið hefur undanfarið ár. Aðeins 12 félög af þeim 500 sem eru í vísitölunni eiga eftir að birta uppgjör sín. Til þessa hafa 62% fyrirtækja birt uppgjör umfram væntingar markaðsaðila en 22% hafa verið undir væntingum. Hlutfall fyrirtækja sem er yfir væntingum er hærra en á meðalári segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Mestur vöxtur hefur verið meðal fyrirtækja í orkuiðnaði, efnaiðnaði og tækni en minnstur vöxtur hefur verið hjá félögum í fjarskiptum, fjármálum og veituiðnaði," segir í Morgunkorninu.