Hlutabréf tíu kauphallarfyrirtækja lækkuðu í viðskiptum dagsins. Bréf sex félaga hækkuðu og bréf þriggja félaga héldust í stað. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 2,6 milljörðum króna í um 340 viðskiptum. Úrvalsvísistalan (OMXI10) lækkaði um rúmlega hálft prósentustig og stendur í 2.352 stigum.

Mest hækkuðu hlutabréf Icelandair í mestri veltu í þriðja skiptið á undanförnum sex viðskiptadögum. Bréf félagsins hækkuðu um 4,3% í 711 milljóna króna veltu og standa í 1,46 krónum. Næst mest velta var á bréfum Marel fyrir 302 milljónir sem lækkuðu um 0,8%.

Næst mest hækkuðu bréf Brimar um 1,5% og standa bréf félagsins í 45,9 krónum. Brim birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða en félagið hagnaðist um 2.600 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi og dróst hagnaður saman um tíu prósent milli ára.

Mest lækkuðu hlutabréf Eimskipafélags Íslands eða um 1,4% í einungis sex milljóna króna viðskiptum. Eimskip birti einnig árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag. Hagnaður félagsins dróst saman um 14% milli ára. Á undanförnum mánuði hafa hlutabréf Eimskips hækkað um ríflega fimmtung.

Næst mest lækkuðu bréf Icelandic Seafood eða um 1,2% í 125 milljóna króna veltu. Fyrirtækið birti árshlutauppgjör í gær en tap félagsins minnkaði um 35% milli ára.