Hlutabréf Kviku banka hækkuðu mest í mestri veltu í viðskiptum dagsins. Bréf félagsins hækkuðu um 2,8% í 654 milljóna króna veltu. Bréf Kviku standa í 14,48 krónum og hafa þau hækkað um tæp 19% á síðasta mánuði.

Alls hækkuðu bréf sex félaga sem skráð eru á aðalmarkað kauphallar Nasdaq á Íslandi en bréf tíu félaga lækkuðu í verði. Mest lækkuðu bréf Brims um 2,1% í 148 milljóna króna veltu en næst mest lækkuðu bréf TM um tæplega tvö prósent.

Heildarvelta nam 2,5 milljörðum króna í alls 213 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 0,27% og stendur í 2.324 stigum.

Gengi krónunnar hækkar verulega

Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. Mest styrktist hún gagnvart Bandaríkjadali eða um 1,27% sem nú fæst á 133 íslenskar krónur. Minnst styrktist hún gagnvart dönsku krónunni, um 0,91% sem fæst nú á ríflega 21 íslenska krónu.

Krónan styrktist um tæpt prósentustig gagnvart evru sem fæst á tæplega 160 krónur. Enn fremur styrktist hún um ríflega prósentustig gagnvart breska pundinu sem nú fæst á 178 krónur.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 8,9 milljörðum króna í 83 viðskiptum. Framþróun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa var tvískipt. Til að mynda lækkaði krafa á óverðtryggð ríkisskuldabréf á gjalddaga árið 2031 um 13 punkta. Lækkunin náði enn fremur til sambærilegra ríkisbréfa sem eru á gjalddaga 2028 og nam 11 punktum.

Hins vegar hækkaði krafa á alls 13 skuldabréfaflokka. Til að mynda hækkaði ávöxtunarkrafa á verðtryggð skuldabréf Íslandsbanka sem eru á gjalddaga 2028 um 24 punkta og stendur krafan nú í 0,51%. Á þessu ári fór krafan lægst í -0,16% í septembermánuði, þó í stutta stund.