*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 18. september 2020 13:18

Áfram hækkar íbúðaverð töluvert

Íbúðaverð hækkaði um 0,8% milli mánaða, verð á öðrum vörum hækkaði um 0,5%. Árshækkun ekki hærri síðan í janúar 2019.

Ritstjórn
Þrátt fyrir eina dýpstu efnahagslægð í heila öld hefur íbúðaverð hækkað þónokkuð undanfarna mánuði sem rekja má meðal annars til lækkun vaxta.
epa

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í ágúst. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist yfir 0,5% milli mánaða. Frá þessu er greint í hagsjá Landsbankans. Nú mælist tólf mánaða hækkun íbúðaverðs 5,2% og hefur ekki verið hærri síðan í janúar 2019.

Milli mánaða hækkaði verð á fjölbýli um 0,7% og verð á sérbýli um 0,9%. Tólf mánaða hækkun sérbýlis mælist nú 4,8% en tólf mánaða hækkun fjölbýlis 5,2%. „Síðastliðna 3 mánuði hefur íbúðaverð hækkað að jafnaði um 0,7% milli mánaða. Í fyrra var sambærileg hækkun 0,3%,“ kemur fram í hagsjá bankans en talið er að vaxtalækkanir hafi haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði.

Milli mánaða hækkaði verð á öðrum vörum en húsnæði um 0,5% og hækkaði raunverð íbúða því um 0,3%. Tólf mánaða hækkun á raunverði mælist nú 1,7% sem Landsbankinn telur nokkuð hóflegt í sögulegu samhengi.

Ef íbúðaverð myndi vaxa jafn hratt næsta árið og raun bar vitni um síðustu mánaðamót yrði ársvöxtur ríflega tíu prósent.