Gengi bréf Icelandair hækkaði mest í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði, þriðja daginn í röð , eða um 8,73%, og er gengi bréfa félagsins því komið í 1,37 krónur.

Viðskiptin námu 690 milljónum króna, sem voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag. Bréf félagsins hækkuðu um nærri fimmtung á mánudag, líkt og bréf víða um heim , eftir að fréttir bárust um að bóluefni sem Pfizer fyrirtækið er með í þróun hafi 90% virkni sem er meira en væntingar voru um.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 906 milljónir króna, en bréf bankans lækkuðu í þeim um 1,70%, sem jafnframt var þriðja mesta lækkunin á bréfum í einu félagi. Lokagengi bréfa bankans var því 86,70 krónur.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag námu 4,4 milljörðum króna, og hækkaði úrvalsvísitalan í þeim um 0,27%, upp í 2.340,58 stig. Þriðja mesta valtan var með bréf Reita, eða fyrir 488 milljónir króna, en bréf fasteignafélagsins lækkuðu um 0,68% í þeim, niður 58,60 krónur.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa TM, eða um 3,22%, upp í 44,90 krónur, í 267 milljóna króna viðskiptum, sem voru jafnmikil viðskipti og bréf félagsins sem fór í gegnum þriðju mestu hækkunina, það er Kviku banki, en bréf hans hækkuðu um 2,45%, upp í 13,39 krónur.

Eik lækkaði mest en krónan styrktist

Bréf fasteignafélagsins Eikar lækkuðu mest, eða um 2,05%, í 83 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins 8,62 krónum. Næst mest lækkun var svo á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 1,85%, upp í 185,50 krónur, í þó ekki nema 13 milljóna króna viðskiptum.

Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum utan Bandaríkjadals, en hann styrktist um 0,19% gagnvart krónunni og fæst nú á 137,41 krónu.

Evran veiktist um 0,25%, niður í 161,57 krónur, breska pundið veiktist um 0,03%, niður í 181,35 krónur og japanska jenið veiktist um 0,11%, niður í 1,3007 krónur. Mest veiking var á norsku krónunni, eða um 0,38%, niður í 15,138 krónur.