Samkvæmt nýjum reglum Evrópusambandsins sem einnig gilda hér á landi þarf rekstur allra flughafna með meira en 200.000 farþega á ári að standa undir sér. Þegar reglurnar voru kynntar fyrir ári var útlit fyrir að þær gætu haft áhrif á rekstur Reykjavíkurflugvallar og Akureyrarflugvallar en eftir breytingar á þeim er staðan orðin önnur. Kemur þetta fram á fréttavefnum Túristi.is .

Á síðasta ári fóru um 358.000 farþegar um Reykjavíkurflugvöll en samkvæmt Isavia, rekstraraðila flugvallana hér á landi, er það aðeins turnþjónusta flugvallarins sem er styrkt af ríkinu og er slíkt leyfilegt samkvæmt nýjum reglum ESB. Verði hins vegar af framkvæmdum á flugvallarsvæðinu gæti verið þörf á sérstökum undanþágum.

Á sama tíma flugu tæplega 180.000 farþegar til og frá Akureyri og fellur því rekstur hans innan ramma reglnanna frá Evrópusambandinu. Ef farþegafjöldin mun hins vegar fara yfir 200.000 á ári þá þyrfti rekstur flugvallarins að standa undir sér án ríkisstyrkja.