Hlutabréf hækkðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð.

Nasdaq hækkaði um 0,56% og stendur vísitalan nú í 2488,52 stigum.

Dow Jones hækkaði um 0,92% og stendur vísitalan nú í 12852,85 stigum.

Standard & Poor’s 500 hækkaði um 0,79% og stendur vísitalan í 1420,33 stigum.

Hlutabréf lækkuðu verulega í byrjun dags en eftir hádegi fóru bréfin að hækka. Það voru viðvaranir frá kreditkortafyrirtækjum og smásöluaðilum sem gerðu það að verkum að allir markaðir sýndu rauðar tölur strax í byrjun. Wall Street Journal tilkynnti eftir hádegi að Bank of America væri langt kominn í viðræðum vegna yfirtöku Countrywide bankans. Eins og greint var frá í gær hefur orðrómur verið uppi um gjaldþrot Countrywide en forsvarsmenn bankans vísuðu því á bug í gær. Bank of America lánaði bankanum fjármagn á síðasta ári. Hlutabréf í Countrywide ruku upp við þessar fréttir eða um 51% eftir að hafa lækkað um 39% í vikunni.

Á sama tima sagði Ben Bernanke, seðlbankastjóri Bandaríkjanna í ræðu í dag að líklega munu stýrivextir halda áfram að lækka. Við þessar fréttir fóru fjármálafyrirtæki á flug.

Wall Street Journal greindi einnig frá því að forsvarsmenn Delta Air Lines hefðu nálgast eigendur bæði Northwest Airlines og UAL varðandi hugsanlega sameiningu flugfélaganna. Öll félögin hækkuðu í kjölfarið. Amex Airlines vísitalan, sem samanstendur af 14 flugfélögum, hækkaði um 12% í og hefur ekki hækkað jafn mikið í nærri þrjú ár.

Meirihluti smásala hefur síðustu daga kynnt versnandi afkomu í kjölfar lélegrar sölu í desember. Þó hafa verslanir á borð við Wal-Mart, Target og Costco kynnt betri tölur en búist var við. Í S&P 500 vísitölunni hækkaði sá hluti er snýr að smásölu um 0,8% í dag.

Eins og greint var frá fyrr í vikunni lækkaði AT&T símarisinn þegar forstjóri fyrirtækisins sagði fyrirtækið vera að loka fyrir fleiri númer og internet tengingar þar sem fólk væri ekki að greiða reikninga sina. Þetta þótti merki um slæman fjárhag heimilanna og olli óróa á mörkuðum í byrjun vikunnar. Forstjóri Verizon, næst stærsta símafyrirtæki Bandaríkjanna sagði að tekjur fyrirtækisins hefðu aftur á móti ekki lækkað síðustu vikur. Við þessa yfirlýsingu hækkuðu bæði símafyrirtækin. Bloomberg fréttaveitan hefur að eftir viðmælenda sínum að slíkar fréttir færi ró yfir markaðinn.