Síldveiðin austur af landinu gengur áfram vel. Beitir NK kom með tæplega 1.000 tonn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um hádegi í gær og ræddi heimasíða fyrirtækisins við Tómas Kárason skipstjóra.

„Það er mikla síld að sjá og yfirleitt gengur býsna vel að ná henni. Við fengum til dæmis 685 tonn í fyrsta holi veiðiferðarinnar og toguðum þá í einn og hálfan tíma. Holið var tekið utarlega í Héraðsflóadýpinu. Mér finnst eins og fiskurinn sé byrjaður að þoka sér í austur eða norðaustur og það þýðir að það verður heldur lengra að sækja hann. Annars er þetta búin að vera hin fínasta síldarvertíð og ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Tómas.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu í Neskaupstað segir að vinnsla síldarinnar gangi vel. Síldin er bæði heilfryst og flökuð og flökin fryst bæði með roði og roðlaus.