Hlutabréfavísitölur í Sviss hafa haldið áfram að lækka í morgun eftir að hafa lækkað duglega í gær. Seðlabankinn þar ytra ákvað í gærmorgun að afnema fastgengi svissneska frankans gagnvart evru, en bankinn hafði fest gengið við 1,2 fyrir þremur árum síðan.

Við afnámið styrktist gengi gjaldmiðilsins um 13% gagnvart evrunni en samhliða því lækkaði seðlabankinn stýrivexti úr -0,25% í -0,75%. Tíðindin höfðu mikil áhrif á hlutabréfamarkaði í landinu og lækkuðu vísitölur hlutabréfa umtalsvert í kauphöllinni í Zurich.

Frá opnun markaða nú í morgun hefur gengið haldið áfram að lækka. Hefur SMI vísitalan þannig lækkað um 4,33% og SPI vísitalan um 4,18% það sem af er degi.