Hlutabréf héldu áfram að lækka í Evópu í dag en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 5,5% og er þetta þriðji dagurinn í röð sem hún lækkar.

Eins og fyrr segir lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki nokkuð. Þannig lækkaði HSBC um 4%, BNP Paribas um 7%, Barclays um 10,6% og Credit Agricole um 12,8%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 5,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 5,8% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 5,6%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 6,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 3,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 3,7%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,4% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 8,4% og hefur þannig lækkað um 15% á tveimur dögum að sögn Reuters.

Sveiflur vestanhafs

Það sem af er degi hafa hlutabréf einnig lækkaði í Bandaríkjunum en hafa þó sveiflast nokkuð undir og yfir núllið frá því að opnað var á Wall Street fyrir tæplega þremur klukkustundum.

Þegar þetta er skrifað hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 1,1% eftir að hafa lækkað um allt að 1,3% fyrr í dag. Þá hefur Dow Jones lækkað um 0,1% og S&P 500 um 0,3%.